Laugardagur, 22. apríl 2006
Gleðilega páska
Já, gleðilega páska. Það stefnir í mikla páskagleði hér á Naxos, og allt á fullu í undirbúningi. Lambsskrokkar í heilu í pokum aftan á vespum og mótorhjólum, og fólk að skiptast á kertum og páskaglaðningi. Frú Manolas á hótelinu mínu færði mér í morgun bakkelsi og máluð egg í tilefni dagsins. Laugardagurinn er nefninlega mesti hátíðardagurinn - og flest allt lokað - alveg öfugt við það sem er heima. Í kvöld kl. 23 fer ég í upprisumessu með Aþenu og hennar fólki, og morgun fer ég með Dimitri og hans fólki eitthvert inn í land - til að grilla lamb og gleðjast. Ég er orðin ær af hávaðanum í sprengjum og kínverjum og ef marka má þessi læti verður flugeldaskothríðin á miðnætti örugglega stórfengleg.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 26.4.2006 kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22. apríl 2006
Kastró
Það má segja að toppurinn á tilverunni hér á Naxos sé Kastró. Kastró, er heilmikið borgvirki, sem trónir á efstu hæð byggðarinnar, og rís hátt, nokkur hundruð metra yfir sjávarmáli. Kastró þýðir kastali og í þennan kastala er sko ekki auðhlaupið. Það tók mig reyndar nokkra daga að safna í mig kjarki og þreki til að ráðast til uppgöngu, enda er mannvirkið hannað í þeim tilgangi að heimsóknin þangað sé bæði svínslega erfið og ógreiðfær. Þetta er semsagt alvöru virki. Það var Feneyingurinn Marco Sanudo sem byggði Kastró árið 1206, en Feneyingar komust til valda á eynni, undir hans stjórn, eftir fjórðu krossferðina. Í þrjúhundruð ár, var Hringeyjum öllum stýrt úr þessum himinháa kastala, og Naxos var höfuðstaður eyjanna. Það er eiginlega hræðilega sorglegt, að kastalinn var að hluta til byggður úr efniviði sem tekinn var úr hofinu fallega sem byrjað var að reisa þar sem nú er hafnarmynni bæjarins, árið 522 fyrir Krist. Það hof var aldrei fullklárað, og nú stendur þar aðeins risavaxið hofhliðið, helsta kennileiti eyjarinnar.
En aftur að Kastró. Kastalinn var byggður að feneyskri hefð, og göturnar þröngir rangalar, með fallegum torgum inn á milli. Í suðvesturhluta virkisins, er hús Barozzi fjölskyldunnar, en einhverjir af því sauðahúsi stofnuðu Feneyjar á sínum tíma. Barozzifólkið réði ríkjum á eynni Santorini á þrettándu öld. Annað flott mannvirki í kastalanum er Della Rokka húsið, eins og Grikkirnir kalla það, en það tilheyrði franskættaðri fjölskyldu, De la Roche. Í þeirra híbýlum er nú feneyskt safn sem gaman er að skoða.
En það er líka fleira fallegt innan múrsins. Þarna er kaþólsk kirkja, og tveir skólar, meðal annars jesúítaskóli, sem státar af ekki aumingjalegri fyrrum nemum en sjálfum Nikosi Kazantzakis, sem skrifaði Alexis Zorbas og fleiri góðar sögur. Þar er nú aðal minjasafn eyjarinnar.
Ég ætla ekki að lýsa í smáatriðum þeirri mæðu að komast upp í Kastró, eða angistinni við að finna inngang í herlegheitin. Ég kom austanmegin að, og þar er inngangan í gegnum lítil bogagöng sem eru eiginlega falin bak við trjágróður. Þegar inn er komið tóku við rangalar og stígar og tröppur - allt uppávið auðvitað, en loks er komið að fyrstu byggingunum, sem eru byggðar inn í múrinn sjálfan. Friðurinn og kyrrðin, eldsnemma morguns, gerðu þennan stað nánast helgan. Ég var ein á ferli, og umsvifalaust var mér kippt inn í horfnar aldir. Það er engin leið að lýsa stemmningunni og hughrifunum sem ég varð fyrir þarna. Forneskja - er allt of ljótt orð, - fyrnd, er skárra, - eilífð, kannski skást. Fyrir konutetur af Fróni, sem hefur fátt annað en heimóttann í vegarnesti útí heiminn, er þetta mikilfenglegt. Tíminn hvarf meðan ég ranglaði um þröngar traðirnar - allar úr skjannahvítum marmara, og eina merkið um lífverur, aðrar en þær fljúgandi, - var köttur sem kúrði við vegg, og gömul kona, sem býr þarna enn, en íbúum kastalans fækkar nú óðum.
Ég rambaði loks á annan útgang - aðalhlið Kastró, í suðvesturendanum, og tölti niður hallann, gegnum gamla bæinn á Naxos, þar sem göturnar eru örmjóar og liggja víða undir húsasund og tröppur. Ein og ein mannvera á stangli, - og þeim fjölgaði eftir því sem neðar dró. Neðst í gamla bænum, rétt ofan við hafnargötuna hafa einyrkjar sest að í litlum kytrum, og þar föndra þeir við að smíða alls konar glingur og skart til að selja ferðamönnum, og margir hafa séð tækifæri í að opna þarna litla sæta veitingastaði með grískum mat. Þarna er líka lítil djassbúlla, og svo gamli markaðurinn, þar sem ægir saman öllu besta ferskmeti eyjarinnar, ávöxtum, ólívum, hunangi, og grænmeti í stórum trogum. Þessi bæjarhluti er hrífandi í fallegri elli sinni, og hingað er gott að koma til að upplifa það á eigin skinni hvað tíminn er í raun og veru afstæður.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 24.4.2006 kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. apríl 2006
Óska öllum góðs gengis
Þegar ég var að skipuleggja þessa ferð mína hingað kostaði evran tæplega áttatíu krónur. Í gær, kostaði hún tæplega hundrað krónur. Þetta kostar smá magapínu og samdráttarverki. Það var því mjög súrt í morgun að lesa í Mogganum að Den Danske Bank væri að spá ennþá meiri gengislækkun krónunnar. Ojojoj! Ég fór á röltið, og spekúleraði heillengi í því hvort það yrðu mín örlög hér á Naxos að snæða EKKERT nema kolkrabba - sitja á litlum öskusvörtum búllum við höfnina, - kolkrabbadruslurnar hangandi í röðum á snúru fyrir utan - og eintómir gamlir menn að snæða nýgrillaðan kolkrabba og drekka ouzo. Þetta er nefninlega langódýrasti maturinn hér, og kostar kannski 2 evrur, en ekki 5-7, eins og venjulegur matur kostar annars staðar. En vel á minnst - ég borðaði kolkrabba í fyrsta sinn um daginn með Agli Helgasyni, Sigurveigu og Kára. Þetta var nú á betri veitingastað og kolkrabbinn lystilega hanteraður - og - hann smakkaðist bara ljómandi vel, og kostaði þar reyndar eins og annar matur - dýrari en hjá þeim gömlu við höfnina. Reyndar fengum við þarna líka steiktan saltfisk sem var algjört lostæti, og gæti þess vegna hafa verið íslenskur - en það er nú önnur saga; - og þó, - kannski einmitt sama sagan þegar allt kemur til alls.
Á þessu rölti í morgun fór ég einmitt að hugsa um það sem ég hugsa afar sjaldan um, og síst af öllu í orlofi í útlöndum, nefninlega íslensk efnahagsmál, og hvernig á því stendur að við getum ekki selt okkar gómsætu framleiðslu, - eins og saltfiskinn og lambið, - miklu víðar og á miklu hærra verði..... þó ekki væri nema til að tappa aðeins af áhyggjunum hjá mér.
Það var því nokkuð notalegt að lesa svo nú síðdegis á mbl.is, að krónutetrið hefði hækkað aftur í morgun. En hún þarf að hækka meira.... svo ég fari ekki alveg á taugum.
Begga
Krónan styrkist um 1,51% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 19. apríl 2006
Frændi minn
Það var ekki löng bið eftir því að litla krílið hennar Siggu systur kæmi í heiminn. Þetta gerðist hratt og örugglega og stór og pattaralegur snáði heilsaði foreldrum sínum fyrir miðnætti 18. apríl. Ég samgleðst henni systur minni svo innilega, og nú finnst mér erfitt að vera ekki heima. Kannski að ég sé bara búin að þrá þetta barn hennar meira en hún sjálf. Varla - en víst er að það verður baðað í ást og umhyggju alla sína daga, og faðirinn, minn elskulegi mágur, Þórir Bragason, er efni í súperpabba. Nú bíð ég bara eftir mynd af kútnum, - býst fastlega við því að hann sé nauðalíkur mér.
Begga
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. apríl 2006
Fólkið á Scirocco
Þau eru búin að taka mig að sér, elskulega fjölskyldan á Scirocco. Pabbi Stratos, mamma Ekaterina, bræðurnir Nikos og Mikhalis og systirin Aþena. Þau reka saman indælasta veitingahúsið á torginu mínu, og hjá þeim borða ég oft. En Scirocco er ekki bara staður til að borða á, - þar hittir maður alla sem vert er að hitta og nenna að eyða tíma í þá göfugu list að tala saman, þar er hægt að sitja tímunum saman og lesa í bók, þar er hægt að hangsa yfir vínglasi; - þar er hægt að eyða heitum dögum í skugga undir laufþaki ef maður hefur ekkert annað að sýsla. Maturinn hennar Ekaterinu er óhemju góður. Og hún hlær og verður feimin þegar maður segir það við hana. Hún stendur vaktina í eldhúsinu alla daga, en fær vinkonu sína til að hjálpa sér þegar mikið er að gera. Stratos átti sér þann draum, að koma upp þessum veitingastað, og það tókst. Skömmu síðar fékk hann heilablóðfall og varð að fara í uppskurð, og getur lítið unnið. Hann situr og spjallar við gesti, drekkur kaffi, sveiflar perlubandinu sínu, og spilar kotru við hina karlana. Nikos er elstur, 38 ára, og Mikhalis er 34 ára. Þeir hafa báðir skoðað heiminn og bjuggu um tíma í Svíþjóð. Þeir eru alltaf kátir og hlýlegir og elska þennan stað og vinnuna sína. Flestir grísku gestirnir knúsa þá og kyssa þegar þeir koma, og það segir manni ýmislegt um virktir þeirra í bænum. Þeir hafa óhemju gaman af að reyna að tala sænsku við mig, en nota líka hvert tækifæri til að kenna mér grísku. Aþena er áhugaverð stelpa, 28 ára. Hún elskar staðinn líka, en segir að sig langi samt burtu. Hana langar að ferðast og skoða heiminn og kannski að mennta sig meira. Hún getur ekki hugsað sér líf sitt á Naxos um aldur og ævi. Þótt Aþena elski fjölskyldu sína, þá segir hún þetta líka fjötra. Mamma hennar reikni með því að hún sé til staðar fyrir þau. Katerina reiðir sig á hana, þótt strákarnir hafi sýnt að þeir spjari sig prýðilega í fjölskyldurekstrinum. Það eru hefðirnar og sagan sem Aþena hefur illan bifur á. Hún segir fólk á Naxos líta sig hornauga fyrir að vera orðin 28 ára, og ekki búna að festa ráð sitt og eiga börn. Henni finnst landar hennar öfundsjúkir, tala illa um nágrannann og ekki hugsa um neitt nema peninga og efnisleg gæði. Hún er búin að vera með strák í sjö ár, en er ekki lengur viss um hvort hún vilji bindast honum, því hann sé alveg hættur að segja nokkuð fallegt við hana og taki hana sem gefinn hlut. Hún er ekki viss um að þetta sé lífið sem hana langaði til að lifa.
Svona er Aþena opin og einlæg. Hún sest hjá mér þegar færi gefst, þegar hún er búin að loka bókhaldsskruddunum, - því bókhaldið er hennar verk. Hún er með svo stór falleg brún augu, - spurul augu, - og hún spyr mig og spyr hvað ég hafi gert um dagana. Ekki það að mitt líf hafi verið neitt sérstaklega óvenjulegt eða merkilegt, - en hún er sjúk í sögur af fólki, og finnur þar kannski farvegi fyrir sína eigin drauma. Hún vill vita hvernig er á Íslandi, hvernig er í Ameríku, og á þeim stöðum sem ég hef þvælst til, - og hún spyr hvort það sé ekki dásamlegt að eiga yngri systur, og til hvers foreldrar mínir hafi ætlast af mér.
Það er gaman að tala við unga konu sem er svona full af þrá og löngun, og langar til að slíta af sér viðjar hefðarinnar, og horfa keik framan í heiminn. Hvað get ég annað en stappað í hana stálinu, og sagt henni að bræður hennar séu fullfærir um að passa pabba og mömmu og sjá um staðinn, og að eins og þau haldi mikið uppá hana, muni hún alltaf eiga athvarf hjá þeim, þegar hana langar að snúa til baka. Þetta veit hún auðvitað, en skrefin eru þung og buddan létt. Hún nær í skot handa okkur, - kahlúa með rjóma, og segir mér sögu af vinkonu sinni sem langaði að skíra barn sitt nafni út í bláinn, - en það er ekki venjan hér. Hér er ákveðin regla á því, hvaða afa er byrjað á, þar til búið er að dekka afa og ömmunöfnin fjögur, - og þá fyrst má skíra barn útí bláinn - fimmta barn. Vinkonan uppskar það að amma hennar hefur ekki tala við hana frá því að barnið fæddist, og það hvín í Aþenu þegar hún segir þetta. "Ég vil ekki lifa svona," segir hún hneyksluð á því að eitt barnsnafn skuli getað valdið slíkum þjáningum í einni fjölskyldu.
Aþena vill að heimurinn verði betri - og sérstaklega við fátækt fólk og konur. Hún hefur líka ákveðnar skoðanir á uppeldi og menntun. Hún talar um hörmungarnar í heiminum, og er búin að gera það upp við sig, að þegar hún kemst til valda, þá verði bannað að kenna mannkynssögu. "Nú?" spyr ég hissa. Jú, það er vegna þess að í mannkynssögunni er stöðugt verið að minna fólk á gömul stríð, gamalt hatur, gamla heift, eins og fólk "megi" ekki gleyma því. Í staðinn vill hún að börnum verði kennt að hugsa um framtíðina, og hvað þau geta gert til að gera heiminn betri og þykja vænt um náungann.
Mér finnst gaman að sitja í þessu landi heimspekinganna og hlusta á eldmóðinn í heimspekilegum vangaveltum Aþenu, og ég veit að hún hefur nokkuð til síns máls, - kannski bara heilmikið. Við kveikjum okkur í sígó, og þegjum smá stund, og svo spyr hún skellihlæjandi hvort það sé ekki gaman að vera með svona blá augu, og hvort ég vilji skipta. Síminn hringir, og Sigga systir segir mér þau tíðindi að barnið hennar vilji fara að komast í heiminn - ég segi Aþenu það, og hún rífur af mér símann, til að óska Siggu til hamingju. Nú finnst Mikhalis greinilega komið nóg af hangsi systur sinnar og kallar á hana að koma að hjálpa sér. Sjálfur notar hann hvert tækifæri til að setjast niður með gestum sínum og spjalla. Meir að segja mamma Katerina hefur gaman af spjalli og kann nógu mikið í ensku til að geta rætt um daginn og veginn. Hér er ég Beggaki, - Begga litla, - það er hlýleg kveðja, og þótt matarvistin hjá þessu væna fólki sé óskaplega góð, þá er eiginlega enn betra bara að vita af þeim í tilveru minni hér og geta sest niður og verið eins og heima hjá mér og eiga von á skemmtilegu spjalli - og kannski ouzo eða raki með því.
Beggaki
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 16. apríl 2006
Ekki taka stoltið frá mér
Pálmasunnudagur er heitur á Naxos, og í fyrsta sinn sá ég slangur af fólki á ströndinni. Mest voru það útlendingar, en líka stöku gömul kona, dökkklædd með skuplu, með niðjakrílin sín í eftirdragi. Gegnum sólþyrstan letidrungann var ég búin að heyra hróp og köll á litlar Maríur og Írínur og Yannisa og Spyrosa, ærsl og læti, þegar ég heyrði kallað: "Kári, Kári!" Ósköp var það nú ógrískt, og kiðið sömuleiðis, svona skjannaljóshært. Þar var kominn Egill Helgason með snáðann sinn. Við ætlum að hittast í grískum mat annað kvöld.
Ég komst að því þegar ég kom hingað upp á torg, að vinur minn á netkaffinu, þessi af Dylankynslóðinni - sem ég veit ekki einu sinni ennþá hvað heitir, - hann er svolítið sár út í mig, - kannski móðgaður. Og hvernig tókst mér að svekkja hann? Honum fannst að ég hefði bara átt að þiggja boð um fría tölvunotkun án þess að vera með múður, og tilboð um aðstoð á móti. Ég fann að hann meinti þetta, og þetta var eitthvað að trufla hann. Hann rakti mér alla sína fiskimannssögu, og sögu netkaffisins og sagði mér allt um Akkiles, munaðarlausan bróðurson hans sem vinnur á netkaffinu, en er óttalegur gaur...
Þessi maður hefur ákveðið að lífið eigi að vera gott, og maður eigi að njóta samvista við annað fólk. Honum fannst ástæða til að gleðja mig, og fannst ég gera lítið úr hans gleði yfir því að gleðja mig, með því að bjóða eitthvað á móti. "The pride - don't take that away from me" sagði hann, og ég skil hann og skammast mín auðvitað smá. Maður er bara ekki vanur svona trakteringum. Nú erum við búin að kjafta enn meira saman og allt í góðu. Kannski ég segi sögu hans einhvern tíma hér, - hún er áhugaverð.
Það er undarlegt að sitja hér í sól og blíðu með allar þessar rakettusprengingar allt í kringum mig. Hvernig verður það um páskana? Það er verið að setja upp páskaskraut á ljósastaurana í bænum - svona eins og jólaljósin í miðbænum heima. Gulir rafungar og kerti.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 18.4.2006 kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 15. apríl 2006
Síðasta rigningin
Það stóð í stjörnuspánni minni í morgun, að sama hversu laglaus ég væri, þá ætti ég að prófa hvernig það er að syngja hástöfum. Sleppa öllum hömlum og bara syngja; - helst úti. Það vildi svo til, að þetta var einmitt á dagskránni í dag. Í dag 15. apríl er öld liðin frá fæðingu ömmu minnar og alnöfnu, og ég vildi gera það sem ég geri þegar ég er heima, - fara í kirkjugarðinn og syngja. Ég rölti mér út í kirkjugarðinn, sem er bak við kirkjuna hér við litla torgið mitt. Þessi kirkjugarður er óvenjulegur fyrir Íslending, - hér er hver einasta gröf steypt í marmara. Þetta er eins og marmaraskógur hlaðinn blómum. Ég fann á endanum leiði konu sem hafði fæðst 1906, hún hét Eleni, og fyrir hana söng ég Allt eins og blómstrið eina. Þá kom ömmusyrpan, Máría ljáðu mér möttul þinn, Smávinir fagrir og Heyr himnasmiður. Ég lét þetta duga, og vona að þær amma og Eleni hafi það gott í himnavistinni og bið Eleni forláts á því að ég hafi ekki kunnað neitt grískt. Ég kann nú reyndar lagið um stjörnurnar, - fer kannski síðdegis og raula það ef textinn rifjast upp fyrir mér.
Í gær rigndi í fyrsta sinn eftir komu mína hingað, og vinkona mín á Scirocco fullyrti að það væri síðasta regn fyrir sumar. Undarlegt að geta fullyrt svoleiðis, - en hún var viss - um þetta leyti hættir að rigna, og byrjar ekki aftur að rigna fyrr en í október, segir hún, og ég ætla að trúa því þar til annað kemur í ljós. Það hefur verið næðingur síðustu daga, fyrir utan einn dag um daginn, þegar ég vaknaði við það að brast á með logni. Samt er hlýtt, og stundum talsvert heitt. Þetta eru góðir dagar. Ég get ekki nógsamlega prísað það hvað ég var heppin að velja mér akkúrat þennan gististað. Hótel Agios Georgios, eða St. George, er á langsamlega besta stað í bænum, - á ströndinni, þetta stutta spottakorn frá torginu, og örlítinn spöl frá höfninni. Ég finn að á hafnarsvæðinu er meira gert út á ferðamennskuna, og kaffihúsin þar eru dýrari en hér uppá torginu mínu. Hér er heimafólkið, og það gerir torgið svo sjarmerandi.
Hér á netkaffinu er líka gott að sitja, og eigandinn, sem segist ekkert kunna á tölvur, enda sé hann bara fiskimaður, er vænn og skemmtilegur. Hann segist vera heilli kynslóð eldri en ég, - af Bob Dylan kynslóðinni, fæddur '52, og ég hlæ innra með mér að því. Þótt hann sé orðinn hvíthærður, er nú ekki langt í það að ég verði það sjálf, - ef ég er ekki bara orðin það. Og ef hann bara vissi um ást mína á Dylan og Donovan og öllum þeim. Eftir nokkra daga hætti hann að rukka fullt verð fyrir tölvuafnotin, og ég fór að fá vænan afslátt. Svo kom að því að hann sagði að ég mætti sitja hér frítt, - honum fyndist ómögulegt að láta síbrosandi Íslending, sem kominn er af fiskimönnum, vera að borga sér. Mér fannst það ótækt, og á endanum gerðum við díl um að ég myndi sitja yfir ánum og passa staðinn ef hann þyrfti að skreppa frá á meðan ég væri hér og enginn annar starfsmaður tiltækur. Þetta eru ekki slæm kjör, því hingað kemur skemmtilegt fólk. Það er þannig á þessu netkaffi, að þótt hér séu tölvur í röðum og allt eins og vera ber á slíkum stað, - þá er fólk ekkert of upptekið af því að vinna á þær. Fólk kíkir hingað inn til að spjalla - og þá gleymist tölvan á meðan. Einn af fastakúnnunum hér er Panos. Hann er silfursmiður - býr til skart úr silfri og steinum. Á veturna smíðar hann hringa og skart í gríð og erg, og á sumrin opnar hann litlu búðina sína og selur ferðamönnum. Þannig er líf margra hér. Veturinn er notaður til að undirbúa sumarið. En Panos festi strax auga á hringnum mínum sem Halla Boga smíðaði, og vildi fá að skoða. Það var auðsótt. Ég sagði honum að hringurinn hefði verið smíðaður sérstaklega fyrir mig, og honum fannst hann fallegur. Hann bauð mér að koma í búðina sína, og næsta dag fór ég þangað að skoða. Eins og allir hér er hann forvitinn um Ísland og hvað rekur Íslending í að takast á hendur ferðalag til að setjast upp á eynni Naxos.
Það er auðvelt að kynnst fólki hér - samræðulistin er ennþá í hávegum höfð, og góð tilfinning að labba heim á kvöldin og fá vink og "kalinichta Begga" úr ýmsum áttum á leiðinni.
Beggaki
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 14. apríl 2006
Aróma
Hér á Naxos vefst það varla fyrir neinum hver merking orðins "aroma" er. Þótt ég hafi þvælst á ýmsa staði, þá hef ég hvergi fundið jafn mikinn ilm og ilmkeim af mat. Það er augljóst að hér er ég á stórkostlegu hættusvæði hvað þetta varðar. Ég er ekki búin að smakka neitt sem er ekki ofboðslega gott. Ég stefni að því að Naxoskartöflurnar fái sérblogg við tækifæri, - þær eru engum öðrum kartöflum líkar sem ég hef smakkað, - og finnst mér þær þó venjulega ansi góðar. Hér hafa semsagt orðið til ný viðmið í bragðmati á kartöflum. Gríska jógúrtið ilmar líka ómótstæðilega, og sama er að segja um ostinn.
Svo er það lambakjötið. Drottinn minn dýri - við höldum alltaf að allt sé best og æðislegast heima, - en þetta lambakjöt er sko ekki síður gott. Það sem hér er snætt er líka útigangslamb eins og heima, - eina sem munar er að búféð hér er að borða annars konar gróður. Það kryddar sig sjálft - kryddjurtirnar aðeins öðruvísi. Það kom mér reyndar á óvart hvað Naxoslömbin eru lík þeim íslensku. Sama háralag, - ekki þetta spjátrungslega hrokkna evrópska krullerí, - heldur svona tætingslegt rastafari-lúkk eins og á fallega íslenska sauðfénu. Þær hafa reyndar aðeins mjóslegnari andlitsdrætti hér.
Hunangið hérna er hreint undur, og brauðið hefur ómótstæðilegan kornilm. Ávextirnir eru óvenju bragðmiklir - ég tala nú ekki um appelsínurnar, sem eru algjört gúmmelaði. Ein matmóðir mín hér býr til óhemjugott gums sem hún smyr á nýbakað brauð; - það er eitthvert jukk, gert úr fersku oregano, vorlauk og hvítlauk. Þvílíkt hnossgæti - og ilmurinn af jukkinu er magnaður.
Og kaffið - ohh, - hér eru drukknar allar heimsins tegundir af góðu kaffi. Gríska kaffið er himneskt í úfið morgunsárið, - en þess á milli má fá sér macciato eða latte eða bara venjulegan uppáhelling. Meira að segja hann bragðast vel hér.
Naxosbúar eru stoltir af matnum sem þeir framleiða sjálfir. Hér eru margar búðir sem selja ekkert annað en landbúnaðarframleiðslu eyjarinnar. Þar eru vín, ólífuolía, ávextir, kartöflurnar góðu og ómótstæðilegir ostar... margt fleira líka. Það er ekkert General Mills drasl að þvælast fyrir í hillunum í þessum búðum, og þær eru alltaf fullar af fólki.
Beggaki
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 14. apríl 2006
Blúskveðja
Ég fékk himneska kveðju að heiman í dag. Síminn hringdi, Deitra Farr að senda mér kveðju yfir höf og lönd úr Fríkirkjunni í Reykjavík. Hún söng fyrir mig Nobody Knows... þvílík kveðja - og blúsmenn Íslands spiluðu með. Það verður greinilega mikil stemmning á tónleikunum þar í kvöld. Það er nú meiri snilldin hvað Blúshátíðin hefur gengið vel hjá Dóra, og hugurinn verður örugglega heima í kvöld þegar Deitra og hinar blúsdrottningarnar, vinkonur hennar, Grana Louise og Zora Young, og Mississippi blúsarinn sem Dóri kallar Krúttland Jackson, en heitir Fruteland Jackson syngja sálma amerískra blökkumanna. Þið eigið bara gott þarna heima, að þurfa ekki að missa af þessum tónleikum. Á föstudaginn langa á hátíðinni í fyrra sungu Andrea okkar og Deitra með blúsköllunum, og það eru með eftirminnilegustu tónleikum sem ég hef farið á.
Begga
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. apríl 2006
Páskaundirbúningur
Það er föstudagurinn langi, og hér gengur lífið sinn vana gang, enda koma grískir páskar ekki fyrr en eftir viku. Þó er óhætt að segja að allt sé á fullu við páskaundirbúining, wúííííííí, pling, plang, plong.... hó hó er að koma gamlárskvöld? Nei, það eru að koma páskar, grískir páskar og þeir eru engin venjuleg hátíð. Dimitri er búinn að upplýsa mig um það að um næstu helgi megi ég ekki gera neitt annað en að vera grísk og taka þátt í öllu sem hér gerist. Og það sem gerast mun, er það, að á miðnætti, laugardagskvöld fyrir páska, tjúllast allt í sprengingum og flugeldum, bombum og blístrum, og aðallega, - já, aðallega við kirkjurnar. Prestarnir, sem eru margir hér, eru sprengjukóngar, en allir sem vettlingi geta valdið sprengja líka. Eftir sprengingar byrjar svo páskadjammið, en best mun þó vera að fara í fyrra fallinu í háttinn, því á páskadagsmorgun fara allir til messu. Það ætla ég líka að gera. Strax eftir messu fara allir niður á strönd, grillin eru ræst og lömbunum, sem búið er að baða í kryddjurtum og himneskri ólífuolíu í marga daga, komið fyrir á teini, og byrjað að elda. Á meðan lambið snýst eins og tungl yfir heitri glóðinni er svo sungið, dansað og drukkið - allir saman - allir - og allir dansa, skiptast á vínsopum og bragða svo matinn hver hjá öðrum.
Ég get ekki sagt annað en að ég hlakki til páskanna í ár.
Búðirnar eru fullar af páskaglingri og líka páskaeggjum. Hér eru það bakaríin sem keppast um að vera með flottustu eggin - og þau eru öll risastór, og páskakerti eru fyrirbæri sem allir eru að skoða. Það eru bara venjuleg kerti, skreytt með einhverju glingri, en greinilega ómissandi í hátíðahöldunum.
En það er eins og heima um jólin, - mesta fúttið í undirbúningnum er hjá sprengjumönnunum, - snáðum á öllum aldri, sem geta ekki beðið með að sjá hvort flugeldarnir virka. Og þeir láta sig hafa það að skjóta þeim á loft úr húsasundum, jafnvel þótt það sé heiðríkur og sólbjartur dagur. Kettir og eðlur stökkva á flótta undan látunum, og gaurarnir fyllast kappi og sprengjumóð. Skyldi þá langa til að verða prestar?
Beggaki
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 13. apríl 2006
Kveðið á sandi
Ég fór óvenjusnemma á fætur í morgun, og ástæðan fyrir því var sú, að ég vaknaði við það að það skall skyndilega á stafalogn, eftir vindblásna nótt og hávaða frá hafinu. Allt í einu heyrðist ekkert. Morgunninn hefst á ströndinni, - þar er púlsinn tekinn, - hvernig veðrið mun verða, - hvernig best er að búa sig út í daginn. Það var heitt í morgun, - og þetta spegilslétta haf og sandbreiðurnar til suðurs, kölluðu á langan göngutúr.
Það er sérkennilegt að vera svona einn í veröldinni, eldsnemma morguns á strönd útí buska, strönd sem á sér langa og merkilega sögu, en maður þekkir ekki. Þetta er eins og hugleiðsla. Lauflétt öldugjálfrið er nógu órytmískt til að frelsa mann frá reglufestu göngutaktsins, og maður fer að hægja á sér, ganga skrykkjótt, staldra við, flýta, skoða, stoppa og lulla sér áfram í sama frjálsa rytma og þetta umhverfi spilar fyrir mann. Ég geng út á lítið eiði og sest niður á stein, sekk mér í hugsanir um hetjur og guði, um skrattakollinn hann Þeseif sem var svo ómerkilegur að skilja Ariödnu hér eftir sofandi á kletti, eftir að hún hafði hjálpað honum að drepa Mínótárinn hræðilega á Krít. Var það þessi klettur? Var það kletturinn heima við húsið mitt? Eða var það næsti klettur? Eitt andartak hugsa ég um það hvort ég eigi að prófa að leggja mig hérna á þessum stóra steini - vita hvort ég vakna seint og um síðir við koss frá Dýonísosi eins og Ariadne.... nei, obbosí, það er að flæða yfir eiðið, og ég stekk í land - rennblotna í fæturna, en hvað gerir það til?
Ég held áfram, - langar að komast inn að næstu strönd Agios Prokopios, og kannski alla leið til Agios Anna ef ég nenni. Hugsunin beinist að ómerkilegum hlutum; - hvort skyldi vera betra að labba næst sjónum, þar sem sandurinn er blautur; í farveginum þar sem þarinn og smásteinarnir hafa orðið eftir, eða efst, þar sem sandurinn er mjúkur og gljúpur - eða jafnvel upp á melnum fyrir ofan sandinn. Prófa allar fjórar aðferðirnar. Það er mikilvægt að komast að sannleikanum um þetta atriði. Ég ætla ekki að segja hvað mér finnst, - þið verðið að komast að ykkar eigin sannleika hvað þetta varðar. Á stóru eiði sem skilur strendurnar að er fallegur gróður, runnar og smátré og breiða af villtum blómum. Labbilabb, og ég er komin til Agios Prokopios. Naxosbær er horfinn sjónum mínum. Hér er þá svona - allt önnur veröld. Hér eru nokkrir bátar og karl að mála einn þeirra. Hér er líka meiri melur, og meiri gróður. Ég velti því fyrir mér hvort ég verði bitin af sporðdreka ef ég sest í fjörugrjótið - tek sjensinn. Hér er ég í Paradís, - það er svo hljóðbært í logninu að ég heyri í blautum pensilstrokum bátsmannsins... hugurinn reikar til vina minna heima, fjölskyldunnar og stóru stelpunnar minnar, - hugsa um ástina, tónlistina, tímann og eilfíðina. Eitt augnablik verð ég eins og Amaldus gamli í turninum útá heimsenda, og næsta augnablik er ég eilífðarunglingur að upplifa hippískan draum. Hvað hef ég gert til að eiga innistæðu fyrir þessari hamingju?
Rölti rólega heim á leið, rek mín eigin spor, tek myndir af dýrðinni í kringum mig. Þrjár sænskar konur lagstar berbrjósta út í sand. Var ég ekki að tala um Paradís? Tek eftir því að eitt húsið við ströndina heitir Paradís, og þar er maður að mála. Hér eru fæðingarhríðirnar rétt að byrja, - fáir á ströndinni svo snemma vors. Ég er heppin, - þangað til verður þetta minn heimur, þar sem ég get spígsporað í mínum eigin hamingjutakti. Nú á ég heima hér.
Beggaki
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 12. apríl 2006
Ævintýri á fjöllum
Fyrirheit mánudagsins voru að taka strætó upp í fjöll og skoða þorpið Apiranþos. Ég vaknaði eldsnemma til að ná í fyrsta strætó, dreif mig niður að höfn, þar sem strætóstoppistöð bæjarins er. Þar var fólk farið að safnast saman, aðallega gamalmenni og konur með börn, og svo örfáir ferðamenn. Við vorum varla sest inn í óhrjálegan fararskjótann, þegar maður á miðjum aldri, valdsmannslegur í fasi rekur alla út, og inn í annan vagn, eldgamla rútu.
Það var þröng á þingi, flestallir með einhvern farangur í úttroðnum plastpokum, og hávaðinn eftir því. Það talar enginn lágt í Grikklandi. En það var líka mikill hlátur, upphrópanir, hagræðingar og tilfærslur, og á endanum settist hjá mér gamall maður með eina framtönn. Ungur bílstjóri snaraði sér inn og ók af stað, en sá mynduglegi tók að rukka fyrir farið. Sá gamli við hliðina á mér var greinilega spenntur að sjá jafn skrýtinn fugl og mig, og hóf að hnykkja olnboganum í síðuna á mér, og segja eitthvað, og lítið sem ég gat gert annað en að kinka kolli og brosa. En hann lét það ekki duga. Hélt áfram að ræða og spjalla og spyrja, og í hvert skipti sem hann opnaði munninn fékk ég ýmist olnboga í síðuna eða að hann smellti læri sínu utan í mitt. Þess á milli benti hann út um gluggan, og sagði mér eitthvað greinilega mjög fallegt um staði og staðhætti á Naxos. Satt best að segja kunni ég þessari þvermóðsku og innilegu bjartsýni nokkuð vel. Hann var ekkert að setja það fyrir sig að ég skildi ekki orð, en hafði greinilega mjög gaman af því að segja mér frá. Ég gat ekki annað en glaðst yfir því - uppákoman hlýtur í það minnsta að hafa verið mjög kómísk fyrir þá sem sátu nálægt. Þegar hann fór úr vagninum, nokkrum þorpum á undan mínum áfangastað, kvaddi hann innilega og með virktum. Ég gat þó kvatt á móti: Yasú, yasú, kalimera!
Landslagið á Naxos er fallegt. Hæðir og dalir, og gróðursæld og hrjósturblettir á víxl. Síðasta þorp fyrir Apiranþos var Filoti, sem lítur út fyrir að vera mjög fallegt. Þaðan var ekið uppí móti, uppí fjöll, sem virtust ekkert sérstaklega há úr fjarlægð, en voru það svo sannarlega þegar rútan hossaðist á þröngum kræklóttum veginum - bílstjórinn sló hvergi af, en flautaði svo um munaði í hverri beygju.
Svo komum við í Apiranþos, og ég varð hissa. Þetta leit út eins og stórt bílastæði fyrir neðan háa hlíð þakta hvítum húsum, og þarna var rok. Jú, þarna var kirkja, og hlið. Ég gekk inn um hliðið, og inn eftir þröngum hlöðnum stíg, og smám saman opinberaðist þetta dásamlega þorp mér. Og rokið varð eftir á bílastæðinu - dúnalogn fyrir innan. Ég áttaði mig á því að bílastæðið við þorpshliðið, var ætlað öllum íbúum þess, því innfyrir hliðið fer ekkert vélknúið farartæki, ekki einu sinni vespa. Göturnar liðu þarna hver þvert á aðra upp og niður í tröppum og sundum, undir hús og milli húsa, allt eins og í einhverri dúkkuveröld. Ég vissi svosem ekkert hvert ég var að fara, ég var bara að rölta um, en önnur hver gata endaði á litlum húsatröppum, og þá var bara að snúa við og velja sér einhvern annan rangala. Þarna voru krakkar að leika sér og unglingsstrákar röltu um með asnana sína. Hnakktöskurnar þeirra voru stórir bláir kókflöskukassar, og þar í einhver varningur. Það er erfitt að lýsa þeim áhrifum sem þetta fallega þorp hafði á mig. Hvernig væri að búa á svona stað? Næsti húsagluggi í mesta lagi í tveggja metra fjarlægð frá þínum, og svalirnar þínar næstum kyssa svalirnar á húsinu andspænis þér. En húsin voru falleg, - og sumar svalirnar þaktar blómum. Þarna voru líka veitingahús, og þar inni - eins og alls staðar, - karlar að spila kotru og drekka ouzo eða raki.
Ég rölti mér inn á safnið sem er bæjarstoltið, en þar er varðveittur þjóðlegur vefnaður frá fyrri tíð. Það var nú aldeilis góss sem þar er varðveitt, og augljóst að þær hannyrðakonur sem þar hafa setið við, hafa ekki hangsað yfir kotru og rakidrykkju.
Klukkustundirnar þutu hjá, meðan ég var í þessari sérkennilegu skoðunarferð, og senn kominn tími á síðasta strætó í Naxosbæ. Í strætópésanum sagði að síðasti vagn færi 16.30, en valdsmannskarlinn um morguninn hafði sagt mér 16.15. Þegar ég spurði hverju þetta sætti, sagði hann að hann segði alltaf að strætó færi korteri fyrr en hann ætti að fara, til að allir væru örugglega mættir á stoppistöðina þegar vagninn kæmi. Þetta væri nú svosem í lagi ef vagninn hefði komið kl. 16.30. En hann kom ekki fyrr en 16.45 og þessar fjórar hræður sem biðu með mér orðnar svolítið spenntar. En svo kom strætó - tómur - bara við fimm ferðamennirnir. Ferðin til baka var falleg og vandræðalaus. Í Filoti var hópur af skólakrökkum tekinn um borð og kennari. Skömmu eftir að við ókum af stað þaðan, - og rétt komin út í óbreytta og hreinræktaða sveit, stöðvaði bílstjórinn bílinn, smalaði okkur útlendingunum saman og sagði bara "caput! caput! caput! another bus! caput!" Við skildum þetta sem svo að bíllinn væri bilaður og að annar vagn kæmi innan skamms að sækja okkur. En merkilegt var að bílstjórinn ók til baka með skólakrakkana en skildi okkur útlendingana eftir þarna á þjóðveginum. Við fórum auðvitað að spjalla og spekúlera; tveir stæðilegir finnskir strákar og bresk hjón, og okkur fannst þetta sérkennileg uppákoma. Ekki lét næsti strætó á sér kræla og við vorum farin að velta því fyrir okkur hvort við þyrftum að húkka far í bæinn. Kom þá ekki leigubíll brunandi og skransaði eins og bíómyndarbíll við hælana á okkur. "No bus, only taxi, bus caput!" Ekki vandræði að skilja það, - en hvernig ætlaði hann að koma okkur fyrir í litlum leigubíl. Breski karlinn bauðst til að bíða, en mér fannst eðlilegast að ég biði, þar sem ég var hvort eð er ein. En bílstjórinn hlustaði ekki á svoleiðis kurteisismúður, og byrjaði að raða í bílinn. Finnarnir tveir fyrst, aftur í, þá breski maðurinn, sem var ansi hávaxinn, ég frammí með farangur allra á hnjánum og sætið eins framarlega og hægt var, og breska frúin, lekker dama, var svo lögð til hvílu á lærum herramannanna afturí. Þetta var semsagt röggsamur bílstjóri og tók hlutverk sitt alvarlega að koma okkur heilum í bæinn aftur. Ég sá ekkert út fyrir finnskum bakpokum, en núna var bara hægt að hlæja, og við hlógum öll. Þetta var óvænt ævintýri og ég held að meir að segja bresku frúnni hafi þótt þetta mjög skemmtilegt. Bílstjórinn kom okkur á áfangastað og rukkaði bara sem nam strætófargjaldinu sem strætóbílstjóranum hafði ekki enn gefist tími til að rukka. Mér fanst 2.30 evrur ekki mikið fyrir svona ævintýri.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Aldrei á sunnudögum
Ég er búin að verða mér út um alla helstu reisupésa eyjarinnar, strætóbók og fleira, en það er alveg ótrúlegt að upplýsingar um ferjuferðir milli eyja fást hvergi á prenti. Það er nefninlega þannig hér að meðan sumarið er ekki alveg komið, þá er þetta svolítið losaralegt, og fer helst eftir því hvað skipstjórum og ferjumönnum líst á að gera. Einu ferjurnar sem komnar eru á fastan rúnt er ferjan til Pireus og Krítarferjan. En ég ætla ekki strax í heimsókn til Yanna, og því verður Krít að bíða. Mig langar hins vegar að kíkja á Folegandros sem mér er sagt að sé yndisleg, og Sifnos er líka á bráðaplaninu.
Ég ætlaði hins vegar að eyða þessum sunnudegi í strandgöngu, suður með eynni, og reyna að komast til Agios Anna. En nú ber svo við að hér er hávaðabrim, og enn nýtt leikhús að horfa á það frá veröndinni minni. Ég ætla því að láta strandgönguna bíða og taka daginn rólega. Strætóferð inn á eyju er heldur ekki inni í myndinni í dag, því Dimitri segir að í þorpunum inni í landi, sofi allt á sunnudögum.
Það þurfti ekki meira til en þessa setningu "sofi allt á sunnudögum" - ég er búin að vera með á heilanum síðan lagið sem Melina Mercouri söng í myndinni um Börnin í Pireus Never on Sundays. Ég held að þessi lagarofi í hausnum á mér sé geðsjúkdómur. Það má enginn segja neitt þá dettur mér í hug lag um eitthvað tengt því. En hvað um það, dagurinn fer sjálfsagt í einhver rólegtheit, og fyrsta vers verður að kanna ástandið uppá torgi, og hvernig gengur að þrífa og gera huggulegt þar. Þar er líka besta netkaffið, og eigandi þess er besti vinur Dimitris. Í gær kom hann askvaðandi meðan ég var að spjalla við Úlfhildi, sagðist vera á leið út í búð, og hvort hann gæti fær mér eitthvað. Jú, mig langaði smá í kók, og fyrr en varði kom hann færandi hendi með kókdós og rör. "On the house", sagði vinurinn, "I want you to feel at home here". Þannig er stemmningin hérna, og mér finnst ég stálheppin að hafa álpast hingað á undan öðrum ferðamönnum, - hér eru allir vinalegir og hlýir við hjarðlausan sauð frá Íslandi.
En nú ætla ég að skvera mér í sturtu og búa mig undir að kanna hvernig sunnudagur á Naxos lítur út. Best að kveikja aftur á Junior Wells, - Messin with the Kid kemur mér í góða skapið, sem svosem enginn hörgull er á hér á þessum unaðsreiti.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Nostalgía í 16 fermetrum
Það er skrýtin tilfinning að lifa lífi sínu allt í einu á 16 fermetrum, þegar maður er vanur 100m2 í týpísku reykvísku fjölbýlishúsi. Mér líður eins og ég sé aftur orðin unglingur í herberginu mínu í H7. Hér er svo auðvelt að búa til stemmningu, rútta til og breyta, hengja upp myndir kveikja á kertum og reykelsi og hafa það verulega notalegt, og úr því að Dimitri segir að ég megi gera hér hvað sem ég vilji, þá hika ég ekkert við að haga mínu lífi hér á Agios Giorgos eins og mér sýnist.
Í gærkvöldi hafði ég ráðgert að fara á grískt danskvöld á stað hér rétt hjá, en fyrr um daginn hafði ég rambað á hannyrðaverslun, og stóðst ekki mátið þegar ég sá himneskt úrval af steinum og perlum, leðurreimum og öllu því sem þarf til að búa til skart. Þegar ég var komin heim úr þeim leiðangri, varð föndrið svo spennandi að gríski dansinn gleymdist. Þetta varð einhvern veginn alveg eins og í gamla daga þegar ég sat kvöld eftir kvöld að teikna, vantslita, sauma, vefa eða prjóna í herberginu mínu heima hjá pabba og mömmu ég komst í djúp tengsl við gamalt sjálf. Og merkilegt ég fann mig knúna til að slökkva á Bill Wyman og Junior Wells í græjunum mínum og kveikja á útvarpinu. Það skipti engu máli þótt þar væru einhverjir vellulegir grískir Loðmundar að kyrja eitthvað sem ég skildi ekkert í, - þegar maður situr og dútlar eitthvað í höndunum, þá hlustar maður bara á útvarp, - skiptir ekki máli hvaða útvarp.
Þetta var því frábært kvöld og afraksturinn allra fallegasta hálsfesti úr grískum stein- og messingperlum. Lagðist svo í fletið mitt og las meira í Grikklandsgaldri Sigurðar A. Magnússonar og vaknaði kófsveitt við drauma um funheitan grískan dans.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Vinkonan á Platia
Það er búið að opna veitingahúsið Platia við aðaltorgið í Naxosbæ. Það sker sig frá öðrum fyrir það að þar eru borð og stólar í grænum lit, en ekki þeim bláa og grænbláa sem er svo víða. Nú er komið að því að smakka gríska matinn ég hef ákveðnar væntingar ef hann er ekki verri en grískur matur í Ameríku, þá er hann góður. Þarna sitja nokkrir karlar tveir þeirra að spila kotru í makindum undir hávaðanum frá torginu, en á móti mér á veröndinni situr falleg gömul kona í kjól, og goltreyju, á inniskóm og með svarta skuplu.
Morgunverður samanstendur af grísku kaffi, appelsínusafa, grísku brauði með hunangi, og jógúrti með ferskum ávöxtum. Mér líst vel á þetta. Elskulegur þjónninn tekur niður pöntunina en þá upphefst eitthvert vesen. Gamla konan er ræst á fætur og þjónninn spyr mig hvers konar ávextir mér þyki bestir. "Allir ávextir eru góðir," segi ég brosandi. Hann víkur sér að ömmu, réttir hennir litla buddu, bendir á mig, kyssir hana á kinnina, og fyrr en varir fer hún að hlæja feimnislega, lítur á mig og stekkur svo af stað, jafn léttfætt og Fía frænka. Fyrr en varir kemur hún til baka með poka fullan af ávöxtum og sýnir mér oní hann með spurn í augum. Þetta var þá málið það þurfti að senda ömmu út í búð eftir ávöxtunum í jógúrtið og appelsínum í safann minn, og nú stendur hún hróðug andspænis mér þessi aldna Afródíta og hlær þegar ég kinka kolli og segi "efcharistó" - takk. Við erum orðnar vinkonur.
Morgunverðurinn var hrein dásemd, og safinn eins og að fá appelsínu í æð þetta er ljúft; - ekki síst fyrir tilverknað ömmu, sem horfði með sínu feimnislega brosi á mig allan tíman, - svona rétt til að fylgjast með því hvort mér líkaði trakteringarnar hjá niðjum hennar í eldhúsinu.
Hingað á ég eftir að koma oft.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Næturkuldi og vorverk
En sá kuldi ég var víst búin að gleyma því að hér er fólk ekkert að hafa fyrir því að kynda á næturnar; - þetta bara hefur sinn gang. Vaknaði margoft ísköld og skjálfandi fyrstu nóttina, en um leið og fyrstu sólargeislarnir smugu inn um gluggahlerana sofnaði ég vært og svaf framundir hádegi. Ekkert lífsmark í húsinu, og ég dreif mig út í göngutúr. Hér er ekki erfitt að villast, húsasundin örmjó og göturnar hver annarri lík með litlum hvítum húsum með bláum dyrum og gluggapóstum. Rambaði samt fljótlega upp á aðaltorgið í bænum og settist þar niður við gosbrunninn sem enn er ekki farinn að láta til sín taka. Ótrúleg mannmergð á svo litlu torgi. Torgið sjálft er nú varla meira en eitt stórt tré og þessi andvana gosbrunnur, gatan í kring er mjó, og þar þjóta litlir bílar og vespur eins og um eins og þeir haldi að þetta sé stórborg, en það er nú öðru nær.
Hér er eitthvað stórkostlegt í gangi sem útskýrir erilinn. Það er alls staðar verið að taka til, mála, skrúbba, þrífa, dytta að, spúla og bera inn varning. Það er ekki bara hótelið hans Dimitris sem er að opna eftir vetrardvala, heldur bærinn allur, og sennilega eyjan öll. Þetta útskýrir líka það að ég taldi um þrjátíu vörutrukka inn í ferjuna á höfninni í Aþenu. Það er verið að tappa á eyna, búa hana undir sumarið og vertíðina sem því fylgir. Konur eru alls staðar í óða önn að sópa og setja niður blóm og lauka og koma fyrir á svölum og í öllum mögulegum skotum meðan karlarnir eru að drösla varningi inn í búðirnar og veitingahúsin, sem raða sér eins og maurar í herfylkingu þétt í kringum torgið. Hér er líf að fæðast og ég sit hér eins og vitni að fæðingunni. Það rifjast upp fyrir mér að Grikkir eru háværir, og hljóma eins og þeir séu stöðugt að þrasa, þegar þeir eru bara að tala saman. Mannamál er líka aðaltónlistin á þessu torgi, hróp og köll, en gegnum hávaðann fossar óbeisluð gleði og tilhlökkun. Það er eins hjá mér. Ég bíð spennt að sjá hvað úr þessum fæðingarhríðum verður.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. apríl 2006
Lending á Naxos
Ég er lent á Naxos eftir langt, langt ferðalag. Flugið var óttalega leiðinlegt, en bátsferðin frá Aþenu til Naxos var besti parturinn, þótt lengstur væri, rúmir fimm tímar. Það var ótrúleg fegurð að sigla út á Eyjahafið í glampandi sól til móts við sólarlagið og Naxos. Þvílíkur blámi! Dimitris Manolas, gestgjafi minn á Agios Giorgos tók á móti mér á hafnarbakkanum og fór með mig í smá rúnt um bæinn til að sýna mér helstu kennileiti. Hann ræður ríkjum hér, eftir að pabbi hans og mamma skiluðu gistihúsinu í hendurnar á honum.
Það kom á daginn að herbergið mitt er talsvert minna en ég hafði ímyndað mér, en mjög notalegt. Ég er á þriðju (efstu) hæð, og með besta útsýnið á staðnum, og nú, þegar ég sit hér við opinn gluggann, heyri ég gjálfrið í öldunum á ströndinni, um það bil 10 metra frá húsveggnum. Ég er fyrsti gestur vorsins, hótelið er opnað fyrsta apríl ár hvert og er starfrækt út október. Það er saggalykt í herberginu mínu, en hún verður farin eftir morgundaginn, því ég ætla að byrja á því á morgun að fá mér reykelsi til að gera góða lykt. Þótt húsið sé eldgamalt, er allt hér hvítskúrað og skrúbbað, og greinilega vel hugsað um staðinn. Besti parturinn af herberginu er veröndin, sem er mun stærri en herbergið sjálft, með borði, stólum, sólhlíf, og aragrúa af fallegum blómum sem pabbi hans Dimitris sér um. Meðn ég var að koma mér fyrir fór Dimitri niður, og kom upp með stóra flösku af vatni, karöflu með víninu hans pabba síns, og skál fulla af appelsínum. Yndislegt! Þegar hann sá mig á hafnarbakkanum kallaði hann Bergþóra! .....rétt eins og hann væri Íslendingur enginn vandræði með þennan framburð gríska og íslenska hljóma ótrúlega líkar, áherslurnar eru svipaðar, og svo fossa þorn og eð út um allt hjá þeim og errið þeirra er alíslenskt.
Þetta er Grikkland, þetta er Naxos, og eftir því sem ég heyri Grikkina tala meira, rifjast ýmislegt upp fyrir mér frá því í Ameríku, og ég skil þónokkur orð. Get alla vega boðið góða nótt og góðan dag, heilsað, þakkað fyrir mig og sagt: Ekkert að þakka. Ég byrjaði á að pakka öllu hafurtaskinu upp og koma því fyrir í litla blágræna fataskápnum, sem er alveg eins og skápurinn hennar Báru, í Benna og Báru, - og í skúffunum undir litla blágræna borðinu mínu. Ég er með vænan ísskáp, hraðsuðukönnu, öryggishólf, gervihnattasjónvarp, gott baðherbergi með sturtu, tvö blágræn náttborð og blágrænt rúm. Ég réðst líka strax á rúmið og náttborðin og færði allt til, til þess að skapa betra gólfpláss og gera enn meira kósí. Dimitri fannst það sniðugt og hljóp niður og náði í heklaða tuskumottu sem mamma hans bjó til. Allir veggir eru skjannahvítir, en loftið er viðarloft úr brúnum viði með þverbitum, eins og vera ber í svona húsi. Á náttborðunum tveimur og litla sæta skrifborðinu eru glerplötur, og undir þeim skjannahvítir heklaðir dúkar. Þetta er mjög grískt, auðvitað, - eins og ég vonaðist til. Ég finn að hér á mér eftir að líða mjög vel. Þegar Úlfhildur kemur ætlar Dimitri að setja mig í stærra herbergi með tveimur rúmum, svo við mæðgur höfum aðeins rýmra um okkur. Móttökurnar hérna eru mjög hlýjar og viðkunnanlegar, og Dimitri er kátur og hlýr og það kjaftar á honum hver tuska.
Glugginn minn vísar út á veröndina og hafið, og ég hlakka til að vakna í fyrramálið og opna út á verönd og teyga að mér gríska eyjaloftið.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 26.4.2006 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)